Saga

Frá árinu 1998 hefur tónlistarhátíð verið haldin í Mývatnssveit á hverjum páskum. Músík í Mývatnssveit hefur þá sérstöðu að vera eina vetrartónlistarhátíðin utan höfuðborgarsvæðisins þar sem lögð er áhersla á flutning klassískrar tónlistar. Tónleikar eru ætíð tvennir með mismunandi efnisskrám. Haldnir eru kammertónleikar í félagsheimilinu Skjólbrekku á skírdag og kirkjutónleikar með hátíðaryfirbragði í Reykjahlíðarkirkju á föstudaginn langa.

Í áranna rás hefur hver hátíð haft sitt sérstaka yfirbragð sem helgast af tónlistinni sem flutt er og flytjendunum hverju sinni. Megináhersla hefur verið lögð á að hafa tónlistina sem fjölbreyttasta og nýta frábæra aðstöðu sem fyrir hendi er í sveitinni; félagsheimilið Skjólbrekku og Petroff-flygilinn sem þar er, og Reykjahlíðarkirkju þar sem tónlist annarrar gerðar á betur heima. Margoft hafa heimamenn lagt hátíðinni lið með tónlistarframlagi. Frá upphafi hefur Laufey Sigurðardóttir fiðluleikari haft umsjón með hátíðinni.